Hæ öll,

Sú hugmynd hefur komið upp oftar en einu sinni að mögulegt verkefni fyrir Wikimedia Ísland gæti verið að þrýsta á opinberar stofnanir, samtök og aðra aðila til þess að veita verkum sínum frelsi. Sérstaklega áhugavert nú í aðdraganda kosninga er að þrýsta á stjórnmálaflokka og samtök að gefa út kynningarefni sitt á borð við myndir af frambjóðendum samkvæmt Creative Commons leyfi þannig að það sé hægt að nota myndefnið t.d. á Wikipediu. Flokkarnir ættu að sjá sér hag í því vegna þess að markmiðið með slíku kynningarefni er auðvitað að það fari sem víðast og enginn vill vera eini flokkurinn sem fær ekki myndskreyttar greinar um frambjóðendur sína á Wikipediu (sem er gríðarlega áberandi í niðurstöðum leitarvéla). Það sem þarf að gera er að annars vegar kynna það fyrir flokkunum hvað felst í frjálsum afnotaleyfum og hins vegar að leiðbeina þeim um hvernig þeir geti staðið rétt að því að gera þetta þannig að það gangi ekki á rétt ljósmyndarans og sé einfalt og þægilegt fyrir notendur Wikimedia Commons þegar kemur að því að hlaða myndunum þar inn.

Ég hef sett mig í samband við Wikimedia Foundation um að fá afnot af nafni og lógói stofnunarinnar til þess að nota með bréfi til flokkanna til þess að í því felist meiri vigt en ef það væri sent á vegum einstaklings. Líta má á þetta sem "pilot project" fyrir stofnun Wikimedia Ísland í framtíðinni.

Fyrstu drög að bréfi til stjórnmálaflokka eru hér fyrir neðan. Þetta verður að vera skýrt þannig að fólk sem hefur aldrei áður heyrt minnst á Creative Commons geti áttað sig á því um hvað málið snýst og má helst ekki verða svo langt að upptekið fólk freistist til þess að lesa ekki allt bréfið.

Efni: Varðar notkunarskilmála kynningarmyndefnis Xflokksins.

Undirritaður sendir þessi skilaboð fyrir hönd hóps áhugamanna um framgang íslensku Wikipediu og með samþykki Wikimedia Foundation til þess að benda íslenskum stjórnmálaframboðum á kosti þess að kynningarefni á borð við myndir af frambjóðendum sé gefið út með „frjálsum“ afnotaleyfum á borð við þau sem kennd eru við Creative Commons.

Hvað er Wikimedia Foundation?

Wikimedia Foundation eru bandarísk félagasamtök sem ekki starfa í ágóðaskyni og reka fjölmargar vefsíður. Þekktasta verkefni WMF er Wikipedia sem er frjálst alfræðirit sem er skrifað af notendum sínum og hefur á sinni rúmlega 12 ára sögu orðið að einni fjölsóttustu vefsíðu í heimi. Wikipedia er til á 285 tungumálum, þar á meðal íslensku.

Hvað er frjálst afnotaleyfi?

Með frjálsu afnotaleyfi er átt við leyfi sem rétthafi höfundaréttar á einhverskonar hugverki veitir almenningi til þess að nota, dreifa eða byggja á hugverkinu með litlum takmörkunum. Frjáls afnotaleyfi gera almenningi þannig auðvelt fyrir að dreifa hugverkinu og vinna með það sem stuðlar að hámarksútbreiðslu verksins. Stærsti notanda frjálsra afnotaleyfa á heimsvísu er Wikipedia, frjálsa alfræðiritið, sem er gefin út samkvæmt Creative Commons BY-SA leyfi sem þýðir að hver sem er má afrita efni Wikipediu, dreifa því áfram, byggja afleidd verk á því og jafnvel selja það í ágóðaskyni svo lengi sem höfundar þess er getið og svo lengi sem möguleg afleidd verk verði gefin út undir sama leyfi. Einhverjir kunna að staldra við það að sala í ágóðaskyni sé leyfð og hugsa sem svo að það sé ómögulegt að gefa öðrum svo víðtækt leyfi til afnota á verkinu en þá ber að líta á það að allir hafa þennan rétt og því er það í framkvæmd þannig að lítil hagnaðarvon er af slíkri sölu þar sem enginn einokunarréttur er til staðar.

Margar útgáfur frjálsra afnotaleyfa eru til en langþekktust eru leyfin á vegum Creative Commons sem eru bandarísk félagasamtök. Creative Commons afnotaleyfi gera höfundum kleift að gefa út verk sín með frjálsum skilmálum sem þeir geta sniðið að eigin þörfum. Sjá umfjöllun á íslensku á vef Creative Commons: https://creativecommons.org/licenses/?lang=is

Af hverju ætti Xflokkurinn að gefa út kynningarefni samkvæmt frjálsu afnotaleyfi?

Wikipedia er sem áður segir „frjálst alfræðirit“ sem gefið er út samkvæmt frjálsu afnotaleyfi. Það þýðir að myndefni sem er notað á Wikipediu þarf líka að vera gefið út samkvæmt frjálsu almennu afnotaleyfi. Það er ekki nóg að flokkurinn veiti sérstakt leyfi fyrir notkun mynda á Wikipediu eða veiti almennt leyfi til notkunar í kynningar- eða fræðsluskyni eins og stundum er gert. Það er heldur ekki nóg að velja hvaða Creative Commons leyfi sem er vegna þess að sum CC-leyfi fela í sér takmarkanir á notkun í ágóðaskyni eða bann við gerð afleiddra verka. Hvorugt passar innan skilmála Wikimedia um frjáls afnotaleyfi. Eingöngu leyfin CC-BY og CC-BY-SA eru nægjanlega frjáls í skilningi Wikimedia.

Með því að myndefni er gefið út með frjálsu afnotaleyfi er heimilt að hlaða því inn á miðlægan gagnabanka Wikimedia og þar með nota það á öllum vefjum Wikimedia, t.d. Wikipediu. Þannig er hægt að myndskreyta Wikipediugreinar um einstaka frambjóðendur flokksins með myndum sem eru af miklum gæðum, teknar af fagmönnum og hafa samræmt útlit á milli frambjóðenda. Ef frjálsu myndefni frá flokkinum sjálfum er ekki til að dreifa verða höfundar Wikipediu að reiða sig á frjálst myndefni frá öðrum aðilum sem þýðir það að annað hvort eru greinar ekki myndskreyttar eða þeir notast við myndir sem ekki hafa sömu tæknilegu gæði og eru líkast til teknar af áhugaljósmyndurum við ýmis opinber tækifæri fremur en í stúdíói.

Greinar Wikipediu eru alla jafna á meðal efstu niðurstaðna í leitarvélum á netinu og það er því til mikils að vinna fyrir stjórnmálaframboð að þær líti sem best út og noti bestu mögulegu myndirnar. Bent skal á að fjölmargir aðilar úti um allan heim hafa nú þegar kosið að fara þessa leið. Þar má til dæmis benda á stjórn Baracks Obama í Hvíta húsinu og Norðurlandaráð.(tenglar)

Hvernig getur flokkurinn gefið myndefni sitt út með frjálsu afnotaleyfi?

Í fyrsta lagi þarf flokkurinn að afla leyfis síns ljósmyndara fyrir því að heimilt sé að gefa myndirnar út samkvæmt frjálsu afnotaleyfi. Ef flokkurinn kaupir þjónustu atvinnuljósmyndara við myndatökur af frambjóðendum þá eru líklega nú þegar um að ræða skilmála þar sem rétthafi myndanna, ljósmyndarinn, afsalar sér til flokksins réttinum til dreifingar og útgáfu myndanna. Þessa skilmála þarf að útvíkka þannig að þeir nái til þess að gefa myndirnar út samkvæmt frjálsu afnotaleyfi á borð við Creative Commons BY.

Í öðru lagi þarf flokkurinn að gefa myndirnar út opinberlega sjálfur, annað hvort á eigin vefsvæði eða til dæmis á þjónustu á borð við Flickr þannig að ekki fari á milli mála að myndirnar séu gefnar út samkvæmt CC-leyfi. Það getur einfaldlega verið stuttur texti á borð við: „Myndir á þessari síðu eru gefnar út samkvæmt afnotaleyfinu Creative Commons BY-SA 3.0.“ Ef flokkurinn er með Flickr-aðgang þá er innbyggður möguleiki í viðmóti vefsins til þess að gefa myndir út samkvæmt CC-leyfum.

-- 
Bjarki Sigursveinsson
+354 8215644
Mánagötu 8
105 Reykjavík
Iceland